Fólkið var klætt í hvíta samfestinga og settist fyrir framan dekk einkaflugvélanna. Aðgerðin var hluti af mótmælum sem umhverfisverndarsamtökin Grænfriðungar og Útrýmingaruppreisnin skipulögðu í aðdraganda loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Egyptalandi, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Dewi Zloch, talamaður Grænfriðunga í Hollandi, sagði að mótmælendurnir krefðust færri flugferða, aukinna lestarsamgangna og banns við styttri flugferðum og einkaþotum. Samtök hans segja að Schiphol-flugvöllur sé stærsta einstaka uppspretta gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum í Hollandi.
Á sama tíma og hópurinn tók sér stöðu við einkaþoturnar fóru hundruð annarra mótmælenda um ganga flugstöðvarinnar með skilti þar sem krafist var takmarkana á flugferðir.
Engar tafir urðu á almennu farþegaflugi vegna mótmælanna. Schiphol-flugvöllur segist stefna að því að verða kolefnishlutlaus árið 2030 og að hann styðji markmið um að flugiðnaðurinn nái sama markmiði fyrir miðja öldina.
Hollenska ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið að draga úr umferð um flugvöllin um ellefu prósent miðað við árið 2019. Mark Harbers, samgönguráðherra, sagði hollenska þinginu þó í síðasta mánuði að stjórnvöld gætu ekki haft hemil á vaxandi umferð einkaþotna.