Undanfarin misseri hafa verið stöðugar fréttir af aukinni verðbólgu sem leitt hefur til endurtekinna hækkana á meginvöxtum Seðlabanka Íslands. Síðustu tvær vaxtahækkanir voru mjög skarpar, um eitt prósentustig í mars þegar vextirnir fóru í 7,5 prósent og 1,25 prósentustig í maí þegar megninvextirnir fóru í 8,75 prósent.
Bergþóra Baldursdóttir hagfræðingur hjá greiningardeild Íslandsbanka segir minnkun verðbólgunnar nú í júní því vera gleðiefni.

„Loksins er verðbólgan að hjaðna og hjaðnar nokkuð hratt eins og við höfum verið að spá fyrir um. Verðbólga er komin undir níu present í fyrsta sinn í heilt ár. Þetta eru auðvitað jákvæðar fréttir og eitthvað sem Seðlabankinn er örugglega mjög ánægður með," segir Bergþóra.
Næsti vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans er ekki fyrr 23. ágúst sem Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði eina af skýringum þess að peningastefnunefnd hefði ákveðið að fara í skarpa hækkun meginvaxtanna í maí. Bankinn vildi sýna að honum væri alvara með að hækka vexti eins og þyrfti til að ná verðbólgunni niður.

Bergþóra segir hins vegar jákvæð teikn í hagkerfinu.
„Það hefur aðeins dregið úr umsvifum í hagkerfinu. Við erum að sjá minni kortaveltu og það er svolítið að draga úr eftirspurninni. Þetta er nákvæmlega það sem Seðlabankinn er að reyna að ná fram.“ Kortavelta Íslendinga hafi dregist saman að raunvirði í síðasta mánuði og útlit fyrir að það héldi áfram eftir blússandi siglingu síðustu misseri.
„Það eru merki um að vaxtahækkanirnar séu farnar að bíta talsvert,” segir Bergþóra.Bæði einstaklingar og fyrirtæki hafi tekið við sér og töluvert hafi dregið úr eftirspurn í hagkerfinu, sem væri einmitt tilgangur Seðlabankans með vaxtahækkunum," segir Bergþóra.
Greiningardeild Íslandsbanka geri ráð fyrir að verðbólga hafi náð hámarki í 10,2 prósentum í febrúar síðast liðnum og muni hjaðna hratt á næstunni og verða í kringum 8 prósentin um áramótin. Það væri þó langur vegur í 2,5 prósenta markmið Seðlabankans.
„Vonandi getum við séð verðbólguna í kringum 5 prósent um mitt næsta ár. En það verður margt að ganga upp til að það gerist,“ segir Bergþóra Baldursdóttir hagfræðingur greiningardeildar Íslandsbanka.