Niðurstaða skýrslu sem Joe Biden Bandaríkjaforseti lét taka saman er að ekki sé hægt að tengja ákveðin bandarísk vopn við einstakar árásir Ísraelshers á Gasa vegna stríðsástandsins þar. Það sé þó réttmætt að álykta að bandarísk vopn hafi verið notuð í tilvikum sem „voru í ósamræmi við skyldur samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum“ eða „bestu starfsvenjur“ Bandaríkjahers, að sögn Washington Post.
Þrátt fyrir það segist stjórn Biden taka loforð ísraelskra stjórnvalda um að þau brjóti hvorki bandarísk lög né alþjóðalög trúanleg. Þannig getur hún haldið áfram að veita Ísraelum hernaðaraðstoð.
Þolinmæði Biden og ríkisstjórnar hans með ísraelskum bandamönnum hefur farið þverrandi á undanförnum mánuðum í skugga áframhaldandi blóðsúthellinga á Gasa. Áætlað er að hernaðaraðgerðir Ísraela hafi kostað á fjórða tug þúsunda Palestínumanna lífið. Aðgerðirnar eru svar við hryðjuverkaárás Hamas-samtakanna í október þar sem á annað þúsund Ísraela voru drepin.
Bandaríkjastjórn stöðvaði þannig sendingu á um 3.500 sprengjum sem til stóð að afhenda Ísraelum til þess að fæla þá frá fyrirætlunum sínum um árás á borgina Rafah. Itamar Ben-Gvir, þjóðaröryggisráðherra Ísraels og harðlínumaður, svaraði á samfélagsmiðli með því að segja að Hamas-samtökin elskuðu Biden.
Hafa þekkingu og tól til að lágmarka mannfall en virðast ekki beita þeim alltaf
Ísraelar sýndu ekki fullan samstarfsvilja til að greiða götu hjálpargagna á Gasa fyrstu mánuðina eftir að hernaðaraðgerðir þeirra hófust samkvæmt skýrslunni. Tekið er fram að Ísraelar hafi síðan tekið sig á. Washington Post segir að sá hluti skýrslunnar virðist hafa verið skrifaður áður en Ísraelar stöðvuðuð flæði hjálpargagna inn á suðurhluta Gasa fyrir innrás sína í Rafah.
Þá segja skýrsluhöfundar Bandaríkjastjórnar að Ísraelar hafi gripið til einhverra ráða til þess að draga úr mannfalli óbreyttra borgara og að þeir hafi til þess þekkingu og tækni. Hátt mannfall óbreyttra borgara veki aftur á móti spurningar um hvort að Ísraelsher beiti þeim ráðum í öllum tilfellum.