Gíslarnir þrír voru teknir höndum í árás Hamas-hryðjuverkasamtakanna á Nova-tónlistarhátíðina 7. október. Ísraelsher frelsaði þá og fjórða gíslinni í blóðugri hernaðaraðgerð í Nuseirat-flóttamannabúðunum á Gasa á laugardag.
Í yfirlýsingu sem Ísraelsher sendi frá sér var fullyrt að mennirnir þrír hafi verið í haldi Abdallah Aljamal og fjölskyldu hans. Aljamal þessi hefði verið útsendari Hamas og skrifað fyrir al-Jazeera sem ísraelsk stjórnvöld úthýstu í síðasta mánuði. CNN-fréttastöðin segir að herinn hafi ekki lagt fram neinar sannanir fyrir fullyrðingu sinni.
Al-Jazeera segir fullyrðingar Ísraelshers algerlega stoðlausar. Þær séu liður í áframhaldandi atlögu ísraelskra stjórnvalda að heiðri og sjálfstæði fréttastöðvarinnar með rógburði og upplýsingafalsi. Aljamal hafi aldrei starfað fyrir stöðina en skoðunarpistill eftir hann hafi einu sinni birst á vefsíðu al-Jazeera árið 2019.
Aljamal starfaði í lausamennsku fyrir The Palestine Chronicle, bandaríska vefsíðu um Palestínu. Sá miðill segir að Aljamal hafi aðeins fjallað um mannúðarástandið á Gasa í fréttaskeytum sínum.
Aljamal, eiginkona hans og faðir eru sögð hafa verið felld í árás Ísraelshers. Yfirvöld á Gasa segja að 274 Palestínumann hafi fallið í árás Ísraela og tæplega sjö hundruð særst. Ísraelsher heldur því fram að mannfallið hafi verið umtalsvert minna.