Erlent

21 árs konu bjargað á Gasa tíu árum eftir að henni var rænt

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sido kom aftur til Írak í gær eftir tíu ár í haldi.
Sido kom aftur til Írak í gær eftir tíu ár í haldi.

Kona af ættbálki Jasída, sem liðsmenn Ríkis íslam rændu fyrir tíu árum í Írak, þegar konan var aðeins 11 ára gömul, hefur verið bjargað úr prísund sinni á Gasa.

Frá þessu greina yfirvöld í Ísrael, Bandaríkjunum og Írak.

Jasídar eru trúarlegur minnihlutahópur í Írak og Sýrlandi sem hefur sætt ofsóknum og árið 2014 létu hryðjuverkasamtökin til skarar skríða gegn samfélagi þeirra í Sinjar í norðurhluta Írak, myrtu þúsundir mann og hnepptu konur og börn í þrældóm.

Maðurinn sem er talinn hafa haldið konunni, Fawzia Amin Sido sem nú er 21 árs, er talinn hafa látist í loftárásum Ísraelshers en samkvæmt BBC er talið að Sido hafi þá flúið. Henni var síðar bjargað og hún flutt aftur til Írak í gegnum Ísrael og Jórdaníu.

Björgunartilraunir eru sagðar hafa staðið yfir í um fjóra mánuði áður en hægt var að ná Sido út af Gaza.

Kanadíski athafnamaðurinn Steve Maman birti myndskeið af Sido koma heim til fjölskyldu sinnar á X.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×