Erlent

Mette full­trúi Norður­landa á neyðarfundi í París

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Það er ekki langt síðan leiðtogar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja áttu fund en þessi mynd er tekin á fundi leiðtoga ríkjanna á öryggismálaráðstefnunni í München sem fram fór um helgina.
Það er ekki langt síðan leiðtogar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja áttu fund en þessi mynd er tekin á fundi leiðtoga ríkjanna á öryggismálaráðstefnunni í München sem fram fór um helgina.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, verður fulltrúi Norðurlandanna á neyðarfundi Evrópuleiðtoga í París í dag um stöðuna í Úkraínu. Það var Emmanuel Macron Frakklandsforseti sem boðaði fundinn í framhaldi af málflutningi Trump-stjórnarinnar undanfarna daga í tengslum við friðarviðræður við Rússa vegna Úkraínu, sem Evrópu er haldið utan, og eftir samtöl Trump Bandaríkjaforseta við Pútín Rússlandsforseta.

Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, sagði í samtali við Berlingske að Frederiksen myndi tala máli Norðurlanda og Eistrasaltsríkja á fundinum í París. „Það er fundur í París á morgun, þar sem danski forsætisráðherrann tekur þátt og á margan hátt mun vera fulltrúi Norðurlanda og Eistrasaltsríkja, sem eru meðal þeirra sem styðja hvað mest við Úkraínu,“ sagði Løkke við Berlingske í gær.

Sjá einnig: Reiðubúinn að senda hermenn til Úkraínu

Á fundinum stendur til að ræða stöðu mála en verulegar áhyggjur eru uppi meðal leiðtoga Evrópu um viðræður um Úkraínu milli Rússlands og Bandaríkjanna, án aðkomu Úkraínumanna og Evrópuleiðtoga. Áhyggjurnar snúa ekki síst að því að Trump muni láta eftir þegar kemur að kröfum Rússa um yfirráð yfir hernumdum svæðum og fleira.

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra sagði í samtali við fréttastofu í gær að leiðtogar Evrópu væru uggandi. Samband Evrópu og Bandaríkjanna sé hins vegar ekki að versna heldur breytast að sögn Kristrúnar en hún sótti umfangsmikla öryggisráðstefnu í München um helgina ásamt Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra.

Kristrún segist hafa lagt áherslu á að efla samband Íslands við Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin. Hún hafi einnig átt samtöl við fjölda leiðtoga Evrópu og ríkja innan Atlantshafsbandalagsins.

Nokkur hópur leiðtoga Evrópulanda hafa boðað komu sína á fundinn, þeirra á meðal Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands og Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands auk þýskalandskanslara, Olaf Schulz. Mark Rutte, framkvæmdastjóri NATO og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sækja einnig fundinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×