Enski boltinn

Um hnífsárásina sem breytti lífi sínu: „Hluti af mér er horfinn“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Andre Wisdom í baráttunni við Shinji Kagawa í leik gegn Manchester United fyrir þónokkrum árum síðan.
Andre Wisdom í baráttunni við Shinji Kagawa í leik gegn Manchester United fyrir þónokkrum árum síðan. EPA/PETER POWELL

Andre Wisdom, fyrrverandi leikmaður enska úrvalsdeildarfélagsins Liverpool, segir líf sitt aldrei hafa verið það sama eftir að hann var stunginn með hníf í ránstilraun árið 2020.

Hinn 32 ára gamli Wisdwom spilar í dag fyrir FC United of Manchester eftir að hafa verið nærri búinn að leggja skóna á hilluna í kjölfar árásarinnar. Hann spilaði á sínum tíma alls 22 leiki fyrir aðallið Liverpool með leikmönnum á borð við Steven Gerrard og Luis Suarez.

Hann fór til Derby County árið 2017 og þremur árum síðar varð hann fyrir árás þegar hann var að heimsækja fjölskyldu sína í Liverpool. Réðust grímuklæddir menn að honum þegar hann var að yfirgefa partí í heimahúsi og vildu fá úr hans og önnur verðmæti.

„Enn þann dag í dag verkjar mig í líkamann eftir hnífsárásina,“ segir Wisdom í viðtali við breska ríkisútvarpið, BBC.

„Ég átti ekki að vera þarna. Ég hefði átt að vera heima að jafna mig eftir leikinn sem við spiluðum en ég var æstur að fara út,“ bætti Wisdom við en Covid-19 var þarna í hæstu hæðum.

Hann segist hafa verið að yfirgefa skemmtunina og verið á leið í bíl sinn þegar fimm menn með lambhúshettur og hnífa umkringdu hann. Þeir vildu úr hans og önnur verðmæti.

„Ég hafði ekki tíma til að hlaupa. Ég hefði átt að nota höfuðið en stoltið stóð í vegi fyrir mér. Fullt af fólki yfirgaf veisluhöldin fimm mínútum síðar og árásarmennirnir hlupu í burtu. Ég lá eftir í blóði mínu á götunni. Allt gerðist mjög hratt.“

Wisdom náði að keyra heim, um 15-20 mínútna akstur. Hann telur að adrenalínið hafi haldið sér gangandi. Þegar heim var komið tók hann eftir því að hann hafði verið stunginn margoft.

„Það var þá sem ég hringdi á sjúkrabíl.“

Derby og stuðningsfólk félagsins stóð við bakið á Wisdom eftir árásina en tímabili síðar var hann samningslaus. Ákveðið var ekki að semja við hann aftur.

„Líkami minn var ekki sá sami. Það var pirrandi. Ég var hvorki jafn sterkur né jafn fljótur og ég hafði verið. Ég sneri of snemma til baka. Ég var of æstur, ég vildi komast aftur út á völlinn. Ég held að það hafi verið þannig sem ég höndlaði það sem gerðist. Ég vildi ekki sitja heima og hugsa um þetta allan daginn.“

„Ég var rangur maður á röngum stað, það gerist alls staðar.“

Wisdom var aðeins 28 ára gamall þegar samningur hans við Derby rann út. Hann fór á reynslu hér og þar en ekkert gekk upp. Það var svo ekki fyrr en árið 2023 sem hann gekk til liðs við neðri deildarfélagið Warrington Town sem hann fór aftur að spila. Þaðan lá leiðin til Derry City á Írlandi og svo FC United nú.

Árásarmennirnir hafa aldrei fundist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×