Fótbolti

Leggur til að MLS kaupi næst­efstu deild svo lið geti fallið

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Alexi Lalas er einn fremsti talsmaður bandarísks fótbolta
Alexi Lalas er einn fremsti talsmaður bandarísks fótbolta

MLS knattspyrnudeildin í Bandaríkjunum er ólík flestum öðrum deildum að því leytinu til að hún er eina atvinnumannadeild heims sem ekki er hægt að falla úr. 

Engin efsta deild nokkurar íþróttar í Bandaríkjunum og Kanada notast við kerfi þar sem lið geta fallið.

Lagskipting er þó á deildum knattspyrnunnar í Bandaríkjunum. USL deildin er næstefsta deild (e. Division II) á eftir MLS deildinni (e. Division I). Liðin standa öll sjálfstæð, ólíkt t.d. G-League og Minor League þar sem venslalið félaganna leika. En lið geta samt ekki fallið eða farið upp um deild, eina leiðin fyrir þau að mætast er ef lið úr 1. og 2. deild dragast saman í bikarkeppni. 

MLS deildin hefur lagt af stað í metnaðarfullt verkefni undanfarin ár og sýnt að hún vilji keppa við stærstu deildir heims um leikmenn og áhorfendur. 

Alexi Lalas, einn besti knattspyrnumaður í sögu Bandaríkjanna, hefur sagt áður að besta leiðin til þess sé að breyta fyrirkomulagi deildarinnar og gera hana þannig samkeppnishæfa. Hann lagði svo til á X-síðu sinni að MLS myndi kaupa USL deildina. 

Rökin fyrir því kerfi sem tíðkast á flestum stöðum heims, þar sem lið geta fallið niður um deild og unnið sig upp um deild, eru þau að hægt sé að losna við slakari lið og metnaðarlausa eigendur á sama tíma og þeim er hleypt upp sem gera vel í næstefstu deild. 

MLS deildin hefur þegar kynnt áform sín að stækka deildina árið 2025 og gera hana að 30 liða keppni. Strax hafa orðrómar svo farið á flug að stækka eigi enn frekar í 36 lið. Mikill áhugi er meðal fjárfesta að stofna lið í Phoenix og Las Vegas. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×